Sími 441 5700 / 840 2681

Dvergholt

Febrúar 2018

Það er ávallt líf og fjör hjá okkur á Dvergholti. Börnin una sér vel í leik og starfi. Við reynum að fara út á hverjum degi meðan veður og aðstæður leyfa.

Síðustu dagar hafa verið fjölbreyttir og skemmtilegir. Á bolludaginn borðuðum við yfir okkur af bollum en í hádeginu fengum við fiskibollur og í kaffinu voru rjómabollur. Á sprengidag fengum við saltkjöt og baunasúpu. Á öskudag var mikil gleði og gaman að sjá alla í búningum. Við héldum furðufataball með Hulduholti og dönsuðum saman. Eftir glens og gaman fengu allir snakk og saltstangir og djús að drekka.  Kær kveðja,

Dvergholtskonur


Janúar 2018

Janúarmánuður fer rólega af stað hjá okkur á Dvergholti. Daglega starfið er á svipuðum nótum og það var fyrir áramót. Við erum dugleg að syngja í samverustundum og höfum gaman saman. Þessa dagana erum við mikið að æfa okkur að syngja lög tengd þorranum og erum við helst að syngja Á þorrablóti er gleði og gaman, Nú er úti norðanvindur, Frost er úti og Krummi krunkar úti.

Framundan er margt skemmtilegt hjá okkur á Kópasteini. Næstkomandi föstudag er bóndadagurinn og verður því boðið upp á þjóðlegan mat í hádeginu. Í febrúar fáum við til okkar góðan gest sem ætlar að kenna okkur jóga á fimmtudögum, alls 4 skipti. Fleiri viðburðir eru í febrúar og má lesa nánar um þá á forsíðunni.Kær kveðja,

Dvergholt

Nóvember 2017

Allt gengur sinn vanagang á Dvergholti og una börnin sér vel hjá okkur. Það er ávallt líf og fjör hjá okkur á deildinni og börnin glöð í leik. Við erum byrjuð að undirbúa fyrir jólin og eru börnin búin að vera dugleg að föndra margt skemmtilegt fyrir jólin.

Við erum byrjuð að syngja jólalögin í samverustund og erum við helst að syngja Jólasveinar ganga um gólf, Adam átti syni sjö og Jólakötturinn ásamt fleiri skemmtilegum jólalögum. Í söngstund í morgun sungu börnin öll saman Skín í rauða skotthúfu.

Um miðjan nóvember var mikið líf og fjör í útiverunni og nutu börnin sín  í góðum leik í snjónum. Börnin ýmist renndu sér á þoturass og/eða léku sér í snjónum.

Kær kveðja,

Dvergholt
September 2017

Þá er aðlöguninni lokið hjá okkur á Dvergholti og er starfið á deildinni komið á fullt skrið.

Við förum út að leika á hverjum degi þegar veður leyfir og njóta börnin sín ávallt vel í útiverunni.

Börnin hafa verið að spreyta sig í regnbogaherberginu og hafa þau helst verið að mála og líma.Við fengum mjög skemmtilega gesti í heimsókn í byrjun mánaðar, en María systir Auðar kom með kanínur til okkar og vakti það mjög mikla lukku. Börnin voru mjög áhugasöm og fengu þau sem vildi að halda á kanínuungunum.Kær kveðja,

Dvergholt