Sími 441 5700 / 840 2681

Steinholt

Apríl

Síðustu vikur hafa verið nokkuð rólegar. Nokkur börn voru í fríi fyrir og um páskanna og var því aðeins færra í hópnum en vanalega. Núna eftir páska höfum við verið að gróðursetja og fylgjast með fræjunum koma upp. Það verður spennandi að fylgjast með því og allir spenntir að sjá sitt blóm koma upp úr moldinni. Við erum byrjuð að syngja nokkur skemmtileg vorlög og læra vísu um mús. Nú fara allir hópar í tónlist á mánudögum og föstudögum. Við erum rosalega glöð með að komast í tónlistartíma og eru börnin áhugasöm. Á næstunni í vinnustund ætlum við að klára ýmis verk fyrir vorsýningu, sem er 9. maí, og nýta tímann til að spila, lesa, mála, fara í gönguferðir og fleira. Lubbi og Blær eru á sínum stað og munu síðan fara í frí í byrjun júní en þá taka önnur verkefni við s.s. sumarskóli og meiri útivera.

Í samverustundum höfum við verið að lesa, syngja og fara í leiki. Við höfum líka verið að æfa okkur í framsögn og notað til þess hljóðnema sem börnin fá að syngja í eða tala. Oft getur verið erfitt að standa fyrir framan vini sína og segja eitthvað í hljóðnema en það er gott að læra það að vera hugrakkur, óhræddur að tala/syngja fyrir framan aðra. Þetta hefur gengið nokkuð vel og allir haft gaman af. 


Mars

Síðustu daga höfum við verið mikið úti að leika í yndislegu veðri, hjólin hafa fengið að vera úti og mikið stuð hefur verið í garðinum. Í morgun vorum við með bókabíó sem Ljónahópur sá um að undirbúa. Þau gerðu bíómiða í síðustu viku og boðskort til að bjóða Dvergholti að vera með. Ljónahópur sá svo um miðasölu og að taka á móti miðum áður en farið var inn í bíósalinn. Þetta var okkar fyrsta tilraun á bókabíói og hún heppnaðist vel. Við ætlum að halda áfram með þessa hugmynd þannig að allir hóparnir fái að taka þátt í að skipuleggja. Bókin Mánasteinar í vasanum var lesin.

Í næstu viku byrjar fjölmenningadagar – þeir standa yfir í tvær vikur. Við ætlum að æfa sönglög á hinum ýmsu tungumálum, skoða allskyns hluti frá öðrum löndum og skoða landakort svo eitthvað sé nefnt. Ef þið eigið eitthvað spennandi frá öðru landi sem er gaman að skoða ætlum við, eins og við höfum gert síðustu ár, að safna saman í kistu hlutum sem hægt er að skoða í samverustundum.


Febrúar

Þessi vika hefur verið mjög skemmtilegt og er alltaf gaman að fá smá tilbreytingu. Allir voru voða kátir með Bolludaginn og Sprengidaginn. Í dag hefur heldur betur verið mikið fjör, allir mættu í búning kátir og glaðir. Við byrjuðum daginn á að fá okkur smá ávaxtabita og síðan var dansiball í salnum með Álfholti. Eftir ballið fórum við inn á deild en þar var hægt að veiða miða sem stóð á „Góðgæti“ og síðan var hægt að fara og skipta miðanum út fyrir snakk og safa. Eftir að allir voru búnir að gæða sér á góðgæti var flæði á milli Steinholts og Álfholts.

Við höfum verið að gera hin ýmsu verkefni í vinnustundum og höfum við mest verið að sauma þessa dagana. Það er gaman að sjá hvað börnunum þykir gaman að skapa eitthvað fallegt. 

Föstudaginn 23. febrúar verða Góuvöfflur en þá bjóðum við foreldrum að koma með sínu barni í morgunkaffi og gæða sér á nýbökuðum vöfflum á milli kl. 8:00-9:00.Janúar

Janúar hefur farið mjög vel af stað og allir tilbúnir að koma aftur til leiks og starfa eftir jólahátíðina. Við erum byrjuð aftur með Blæ og Lubba og er gaman að byrja aftur eftir smá hlé í desember. Þorrinn byrjar næsta föstudag og þá verður þorrablót hjá okkur, börnum og starfsfólki. Þá fáum við þorramat og eru öll börnin  búin að búa sér til þorrakórónu sem þau ætla að vera með á föstudaginn. Við höfum verið að syngja nokkur þorralög og tala um gamla tíma. Við höfum fengið kassa frá Þjóðminjasafninu með alls kyns gömlum hlutum til að skoða. Síðasta föstudag fengum við að skoða leikfangakassa með leikföngum sem börn notuðu í gamla daga og vakti það mikla lukku. Við eigum eftir að fá tvo kassa í viðbót og skrifa ég á töfluna í fataherbergi hvað þeir hafa að geyma.

Í lok janúar er tannverndarvika og ætlum við að fara vel yfir það hvað það er mikilvægt að hugsa vel um tennurnar sínar. 6. febrúar er síðan Dagur leikskólans og ætlum við þá að vera með flæði milli deilda og þann dag mega allir koma með vasaljós, nánar um það síðar. En það er nóg framundan hjá okkur í leik og starfi. 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica