https://vimeo.com/343263613


Umhverfið og starfið okkar!

Leikskólinn Kópasteinn hóf starfsemi árið 1964 og er fyrsti leikskólinn í Kópavogi. Kópasteinn stendur í ákaflega fögru umhverfi í hjarta Kópavogs við Borgarholtið.

Kópavogskirkjan er á hæðinni fyrir ofan okkur, Listasafn Gerðar Helgadóttur blasir við og Salurinn. Þá er Borgarholtið hér allt í kring, með nýju safnaðarheimili Kópavogskirkju á horni Hábrautar.  Börnin þurfa því ekki að fara langt til að upplifa fagurt útsýni, fallegar byggingar og menningu. Vettvangsferðir eru tíðar í nærliggjandi stofnanir og nánasta umhverfi.

Arkitekt leikskólans er Bárður Daníelsson arkitekt og verkfræðingur. Hönnuður lóðar er Aðalheiður Kristjánsdóttir landslagsarkitekt. Byggt var við skólann í kringum 1987, ein deild, salur og kjallari.  Í kjallara skólans er að finna listasmiðju fyrir eldri árganga, valkerfið - sem er leikefni sem nýtt er á deildum og bókasafn skólans.  Þar er einnig vinnuaðstaða kennara og kaffistofa starfsmanna.

Í Kópasteini eru 68 börn á fjórum deildum sem eru aldursskiptar.  Í vesturenda eru yngri deildir.

Börnin eru á aldrinum 1 árs til 5 ára.  Skólinn opnar kl. 7.45 og lokar kl. 16.30.

Börnin fara í vinnustundir í tónlist, skapandi starfi og lífsleikni.  Valkerfið (fjölbreyttur efniviður)  er í boði í fjálsum leiktíma barnanna, þar er m.a. boðið uppá einingarkubba fyrir eldri árganga skólans. Samverustundir eru daglega inni á öllum deildum.  Þar er lesið og sungið og hin ýmsu mál rædd í barnahópnum.

Kópasteinn tekur þátt í vináttuverkefni á vegum Barnaheilla, þar er bangsinn Blær í stóru hlutverki.

Leikskólar Kópavogs eru þátttakendur í læsisátaki í víðum skilningi, það verkefni hófst 2016.  Deildirnar vinna með það verkefni út frá aldri barna.

Endurvinnsla og endurnýting er samofin starfinu.  Umhverfisfræðsla er stór þáttur af starfinu, á vorin og haustin er lögð áhersla á að vinna með náttúruna í víðum skilningi. Við sáum fyrir ýmsum jurtum, setjum niður kartöflur og höldum sérstaka Umhverfisdaga í skólanum í maí. Kópasteinn fór inn í Grænfánaverkefnið fyrir allnokkrum árum og höfum verið að flokka úrgang innan skólans síðan.  Börnin eru virkir þátttakendur í því ferli.  Umhverfismennt er  hluti af starfinu okkar.

Elsti hópurinn er með ýmis sérverkefni sem snúa m.a. að því að efla félagsfærni þeirra og sjálfstæði.  Þau koma fram við ýmis tækifæri.  Fjölmenning er allnokkur við skólann og við fögnum henni m.a. með fjölmenningarvikum á vorin.

Vorhátíð okkar heitir "komdu að leika" og er í maí.  Við bjóðum foreldrum að koma og vera með barni sínu í ýmsum verkefnum, fara um skólann og kynnast starfinu á öllum deildum hluta úr degi.

Við skólann starfar öflugt foreldrafélag og foreldraráð.

Við skólann starfa öflugir kennarar sem stýra starfinu ásamt reyndum leiðbeinendum.  uppfært í ágúst 2019.